Stefnumótun

Safnasafnið er viðurkennt safn samkvæmt íslenskum safnalögum sem tóku gildi 1. janúar 2013. Safnasafnið starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá frá árinu 2014.   Safnasafnið stefnir að því að verða ábyrgðarsafn íslenskrar alþýðulistar, enda hefur safnið algera sérstöðu á því sviði. Safnasafnið hefur með söfnun sinni og sýningum sýnt metnað til að standa vörð um þennan vanmetna menningararf og hefur vilja til að efla rannsóknir á þessum lítt þekkta þætti íslenskrar listasögu.   Safnasafnið er eina listasafnið á þessu sviði á Íslandi og í hópi fárra slíkra á heimsvísu.

HLUTVERK

Safnasafnið safnar alþýðulist, varðveitir hana, sýnir og miðlar. Safnasafnið er miðstöð og rannsóknarsetur íslenskrar alþýðulistar og vinnur að framgangi hennar samkvæmt starfsstefnu, söfnunar- og sýningarstefnu, útgáfu-, forvörslu- og rannsóknaráætlunum.   Safnasafnið beinir sjónum að íslenskri alþýðulist líðandi stundar og stuðlar að viðurkenningu hennar, sem og alþýðulist fyrri alda. Það helgar sig verkefnum sem varða íslenska alþýðulist frá 1850 fram á 21. öld.   Safnasafnið sinnir söfnun, forvörslu, rannsóknum, sýningum, útgáfu, miðlun, ráðgjöf, greiningu og mati á listaverkum.  Safnasafnið heldur skrá yfir alþýðulistaverk í eigu myndhöfunda, erfingja þeirra, listasafna og safnara.

MARKMIÐ

Stefnumótunarvinna hefur verið samfelld frá stofnun safnsins árið 1995 og er hér sett fram 4 ára markmiðasetning fyrir árin 2017-2020. Er þessi stefnumótun í samræmi við þær reglur sem gilda um starfsemi viðurkenndra safna á Íslandi og þær áherslur sem safnaráð hefur lagt til. Einnig eru lagðar til grundvallar siðareglur Alþjóðaráðs safna, ICOM.  

 • Að öðlast viðurkenningu sem ábyrgðarsafn á íslenskri alþýðulist.
 • Að bæta úr og efla þekkingu á sögu íslenskrar alþýðulistar og stuðla að viðurkenningu á alþýðulist sem fullgildum menningararfi.
 • Að vinna að markvissri skráningu á alþýðulist og alþýðulistamönnum, frá fyrstu tíð til okkar daga.
 • Að miðla safnkosti, með sýningum, fyrirlestrum, bókaútgáfu og aðgengi á netinu.
 • Að ljósmynda og skrá safneignina og gera aðgengilega á SARPI.
 • Að gefa árlega út bækur sem efla almenna þekkingu á þessum einstaka myndlistararfi.
 • Að leita uppi óþekkta listamenn um landið allt og koma þeim á framfæri.
 • Að auka fjölbreytileika safneignar.
 • Að vera í samstarfi við önnur söfn sem geyma verk ólærðra listamanna og í sýningarsamstarfi.
 • Að auka rannsóknir á alþýðulist og alþýðulistamönnum, og styðja við sjálfstæðar rannsóknir, en nú þegar er í boði góð aðstaða fyrir fræðimenn í Safnasafninu.
 • Að efla samstarf við erlend söfn á sama vettvangi.
 • Að gera samning við Mennta- og menningarmálaráðuneytið til að tryggja rekstrargrundvöll safnsins.
 • Að gera samning við Svalbarðsstrandarhrepp um aukinn stuðning til að tryggja reksturinn til framtíðar og efla jákvæða ímynd hreppsins.
 • Að afla aukinna sértekna fyrir safnið, til sýninga, rannsókna og útgáfu.
 • Að auka sýnileika safnsins sem mikilvægrar menningarmiðstöðvar og málsvara alþýðulistar.

Stjórn Safnasafnsins leggur áherslu á að safnið vinni á faglegan og metnaðarfullan hátt til að ná þeim markmiðum sem skilgreind eru í stefnumótuninni. Markmiðin á næstu árum eru metnaðarfull og fjölbreytt en eru að sjálfsögðu háð fjármögnun hvers árs og hvers einstaks verkefnis. Stefnumótunin er höfð til hliðsjónar þegar verkefni eru ákvörðuð fyrir hvert starfsár og endurskoðuð að hverju ári liðnu til að meta árangur og næstu skref.

SÝNINGARSTEFNA

Safnasafnið kynnir til sögunnar á hverju ári sýningar þar sem koma fram frumlegar eða eftirtektarverðar nýjungar sem skipta máli fyrir íslenska listasögu og eins þróun alþýðulistar hér á landi. Einnig beinir Safnasafnið með sýningum sínum sjónum að þeirri staðreynd sem oft er horft framhjá, að lærðir listamenn leita jafnt í smiðju alþýðulistamanna og á hinn veginn. Safnasafnið leitar markvisst eftir listamönnum sem ekki hafa hlotið skólagöngu en hafa samt sem áður sýnt frumlega útrás sköpunar, og hins vegar býður safnið samtímalistamönnum (bæði þekktum og ungum og upprennandi) að sýna verk sín í þessu óvenjulega samhengi, þar sem samnefnarinn er listrænt gildi og sköpunarástríða.  Safnið gerir þannig á hverju ári tilraunir með óvenjulegt samspil, formsýn og byltingarkennda framsetningu til þess að brjóta upp hefðir og mynstur, útfrá þeirri hugmyndafræði að sköpunarþörf og listræn tjáning sé óháð aldri, kyni eða menntun. Þannig mynda sýningar hvers árs órofa listheild þar sem unnið er með safneign safnsins á skapandi hátt í samræðu við verk gestasýnenda, með það að markmiði að auka fjölbreytni í sýningarhaldi á samtímalist, laða að áhugasama gesti og örva hugmyndaflug þeirra.

Pin It on Pinterest

Share This