Samfélagsleg ábyrgð

01 Safnasafnið hefur Ísland allt að starfssvæði, markmið þess er að safna sjálfsprottinni myndlist þjóðarinnar og miðla henni á jafnræðisgrundvelli heima og erlendis. Það ber ábyrgð á henni eins og hún birtist í safnkosti og á þann hátt sem safnalög og samningar segja til um og er í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um mannrækt og menningararf 

02 Safnasafnið er vettvangur fyrir fjölbreytilega starfsemi og vinnur samkvæmt starfsstefnu, söfnunarstefnu og sýningarstefnu og inngildandi hugmyndafræði um jafnan rétt minni- og meirihlutahópa, óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, aldri, fötlun og starfs-getu, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Safnið laðar til sín fólk sem önnur listhús líta sjaldan til og gefur því tækifæri til að kynna verk sín, skrifar um það og kemur því á framfæri í sýnisbókum safneignar og vefsíðu, fréttum, leiðsögn og upptökum

03 Safnasafnið hefur með söfnun og sýningum staðið vörð um vanmetinn menningararf, lítt þekkta þætti íslenskrar listasögu, og hefur burði til að rannsaka þá og miðla til þjóðarinnar

04 Safnasafnið hefur sjálfbærni að leiðarljósi og lagar sig að umhverfis- og gæðastöðlum sem nýtast í menningarstarfi. Það er meðvitað um umhverfismál, hreinsar rusl meðfram þjóðvegi til suðurs og norðurs og upprætir kerfil, njóla og bjarnarhvönn út fyrir lóðarmörkin. Safnið tínir upp alls konar brak úr bæjarlæk (Valsá) og Gróðurreit tveggja félagasamtaka norðan safnhúsanna og er svo til ráðgjafar um ræktun, gróðursetningu og slátt innan hans

05 Safnasafnið flokkar og endurnýtir flesta hluti, pappi/pappír er margnotaður og afgangar af plötum sagaðir niður í stöpla, hillur og kassa. Einnota áhöld eru ekki keypt. Heimilissorp, blómaleifar og nýslegið hey er grafið niður til moldargerðar í beðum og safnhaugi. Þá fer fram gróðursetning eftir því sem land leyfir, og reynt að kolefnisjafna með því móti

06 Safnasafnið ræktar nærsamfélagið, býður Valsárskóla og Leikskólanum Álfaborg á Sval-barðseyri að senda inn verk nemenda til sýningar á hverju ári og fær þá í heimsóknir sem lýkur með skemmtitækjasýningu og veitingum. Þannig er stuðlað að gagnkvæmri virðingu og samspili sem nýtist í leik og starfi og sendir út jákvæð skilaboð til heimilanna í héraðinu

(19.12.2019, skjal um samfélagslega ábyrgð er endurskoðað reglulega)

Pin It on Pinterest

Share This