Um safnið

Safnasafnið við Svalbarðsströnd – einstakur staður að heimsækja

Við norðanverðan Eyjafjörðinn, til móts við Akureyri, stendur Safnasafnið við þjóðveginn ofan við Svalbarðseyri. Tignarlegur safnvörður, bláklæddur og rúmlega 5 metra hár, tekur á móti gestum og vísar veginn inn á safnið.

Þegar inn er komið taka við björt og falleg rými þar sem njóta má listsýninga eftir lærða og leika listamenn, þar fléttast saman nútímalist, alþýðulist og handverk. 

Í bókastofunni má kynna sér fróðleik hvaðanæva að úr heiminum um list og menningu, en safnið býr að afar góðum bókakosti um alþýðulist. Á sólpalli við safnið er skjólsælt og hægt að tylla sér út með kaffibolla eftir að hafa notið sýninga, en þar er einnig fallegur garður sem gaman er að ganga um og setjast á bekk og njóta laufskrúðs trjánna. Í anddyrinu er Bláa boxið varðveitt og upp úr því tekin leikföng og sýnd þegar færi gefst.

Stofnendur Safnasafnsins, Níels Hafstein og Magnhildur Sigurðardóttir, hafa í rúm 30 ár safnað af ástríðu verkum helstu alþýðulistamanna landsins, listamanna sem af ýmsum ástæðum hafa verið á jaðrinum eða utan­veltu við meginstrauma, stundum kallaðir næfir eða einfarar í myndlistinni, en eru í reynd beintengdir sköpunarverkinu; sannir, óspilltir og frjálsir.

Safnasafnið hefur þá sérstöðu meðal listasafna á Íslandi að safna og sýna jöfnum höndum list eftir leika sem lærða, þó að meginstofni verkum sjálfmenntaðra listamanna. Safneignin telur um 6.400 listaverk.

Á hverju ári eru opnaðar nýjar sýningar í safninu.

Safnið er opið frá miðjum maí og út ágúst. Á sýningartímanum er opið alla daga frá kl. 10  – 17. 

Gott aðgengi og lyfta á milli hæða.

Safnasafnið

 

Svalbarðsströnd | 601 Akureyri
Sími: 461 4066 | Email: safngeymsla@simnet.is

Opið daglega til 17. september frá kl. 10-17 / og frá 18. september til 3. október frá kl.13-16

 

Pin It on Pinterest

Share This