Kiko Korriro stofa

Til minningar um Þórð Guðmund Valdimarsson [1922-2002], myndlistarmann, lögfræðing og rithöfund m.m. Listaverk og gripir hans voru færðir Safnasafninu með gjafabréfi, undirrituðu þann 24. júlí 2015. Gefendur: börn Sverris Arnar Valdimarssonar, Aðalsteinn, Guðmundur Ingi, Lára Björg, Valdimar, Vilborg og Þórður.

Verk listamannins skiptast í nokkra flokka:

  1. Stórar vatns- og tússlitamyndir, myndefnið er af ýmsum toga, fólk, fuglar, hús og fiskar [fá verk til hér]; þær eru margar ofhlaðnar eða gliðna í uppbyggingu, en litirnir eru listilega blandaðir og halda öllu saman þannig að heildin er í flestum tilfellum ásættanleg.
  2. Kröftugar teikningar með dökku áherslum, yfirleitt á A4+A5 blöðum, sjálfstæð, eftirminnileg verk sem eru líklega hápunkturinn í sköpunastarfi listamannsins.
  3. Gormabækur með litkrítarmyndum á hverri síðu, myndefnið er nokkurs konar könnun á stöðu líkamans eða þá líkama sem tvinnast saman, endurtekningin er nákvæm en samt er alltaf einhver breyting sem þokar hreyfingunni áfram. Álíka krítarverk eru til í stærra formi.
  4. Pennateikningar í ýmsum stærðum, en myndefnið fer oft út um víðan völl og er varla eftirtektavert nema með hugsanlegum undantekningum sem felast í hverjum bunka fyrir sig. Á sýningu í safninu 2016 voru um 60.000 slíkar teikningar í gagnsæjum plasthirslum á hillum í járnrekkum og bundið yfir um með iðnaðarbeltum svo ekki var hægt að sjá hvað var í hverri þeirra.
  5. Fínlegar pennateikningar á auglýsingum af tækjum til notkunar á tilrauna- og læknastofum. Þær fundust í 2 kössum og er ekki ólíklegt að fleiri finnist í öðrum síðar. Teikningarnar eru gáskafullar, ábyrgðarlausar, trúlega gerðar af ánægjunni einni saman þegar listamanninum þótti ef til vill vera kominn tími til að bregða á leik í stöðugum vana vinnunnar.
  6. Skúlptúrar úr flatjárni og litlum endurnýtanlegum hlutum, sem standa annað hvort á járn- eða tréplötu. Auðséð líkindi eru með þessum verkum og blýantsteikningum listamannsins því sveiflur í formgerðinni eru álíka kröftugar, hringform og oddhvassar tilvísanir. Þeir eru ársettir 1951, sem getur vel staðist því að um 5mm þykkt ryklag lá yfir þeim. Það vekur undrun hve listamaðurinn hefur verið handsterkur því efnið er þykkt og hlýtur að hafa verið erfitt að móta það, nema hann hafi haft aðgang að smíðaverkstæði og fengið aðstoð við verkið.
  7. Klippimyndir, þær fyrstu voru líklega gerðar á námsárum listamannsins í Los Angeles eða stuttu eftir heimkomuna, því myndefnið er að hluta til niðurklipptar ljósmyndir frá þessum tíma. Sú kenning er sett fram að þetta séu fyrstu Pop-listarverk íslenskra myndlistarmanna. Erró hóf svipaða vinnu á 6. áratugnum, kannski undir áhrifum af Kiko, því þeir þekktust. Í eigu fjölskyldunnar eru nokkur A0 klipp sem gefa frábæra innsýn í hugmyndaheim listamannsins
  8. Ýmislegt smálegt fylgdi gjöf fjölskyldunnar: málað plastegg, 2 víravirki, tálguð verk, meðal annars úr barkarlausum greinum, málað járn og steinar. Óvíst er hvort öll þessi verk séu eftir Kikó korriró.

Blýantsteikningar – inntak og aðferðir 

Því bregður oft fyrir í teikningahlöðum listamannsins að hann hefur verið svo ákafur í vinnu sinni að hann teiknaði á auða fleti sem stóðu út úr bunkanum, síðan hafa partarnir orðið viðskila hver við annan, þó sumir séu sjálfstæð einföld verk, ílöng og mjó, og sérkennileg í þessu samhengisleysi.

Annað

Tekinn verður til skoðunar tíminn sem listamaðurinn lifði, hreifst af og hafði áhuga á, svo sem kvikmyndum og nýjungum í upplausn í bandarísku og íslensku samfélagi. Í heimsóknum sínum í Metro Goldwyn Meyer Studios í Hollywood árið 1946 var listamaðurinn myndaður af fagmanni og gerður að “starlet”. Það er augsýnilegt að hann lifði sig inn hlutverkið og merkilegt hvað hann var afslappaður, alveg eins og heima hjá sér, og hafi þekkt kvikmyndaleikarana frá fornu fari. En þótt létt sé yfir samkvæminu á ljósmyndum af þeim saman þá er eins og sumir þeirra séu á varðbergi og átti sig greinilega ekki alveg á þessum unga Íslendingi.

Greinar og heimildir Þórðar Guðmundar Valdimarssonar eru varðveittar í Þjóðskjalasafni Íslands.

 

 

 

Safnasafnið

 

Svalbarðsströnd | 601 Akureyri
Sími: 461 4066 | Email: safngeymsla@simnet.is

Opið daglega til 17. september frá kl. 10-17 / og frá 18. september til 3. október frá kl.13-16

 

Pin It on Pinterest

Share This