Sæl og glöð og skýr og skörp í anda þegar rökkrið umvefur og gælir við hvern líkamspart og lyftir okkur á kreik eins og fugli sem hefur krækt klónum of lengi á grein í þeirri von að hann sjái fiðrildalirfu síga niður úr laufkrónunni upp í gogginn en áttar sig loksins á því að sumarið er liðið og komið fram yfir vetrarnætur – og í bergstálinu fyrir ofan fölnaðan móann krunkar hrafninn.

En annar fugl flýgur yfir hafið á vorin til að verpa í trénu fyrir utan stofugluggann og ala upp unga sína smá og sjá þá vaxa úr grasi í bókstaflegri merkingu stránna sem hann tíndi upp í sinunni eða lágu fram á steina, hann þenur brjóst og sperrir stél í átt til sinnar heittelskuðu sem þiggur spriklandi góðgætið ofan í galopna víða munna og eru svo spenntir að þeir gætu gleypt egg úr hænu hugsar móðirin á meðan hún liggur á og horfir á myndirnar sem hanga fyrir innan glerið og kalla fram þægilega tilfinningu í hjartanu en dokar þó ekki lengi við þær því brátt fer að kula og vissara að kúra sig niður þegar sólin hverfur fyrir horn.

Já, verum sæl í sinni í dýrð vetrarins þegar bakarar standa glaðbeittir í eldhúsi pattaralegir eins og sykurgljáðar steikur á fati eða búðingur með rjóma og kirsuberi á toppnum til að minna þá á hve bjart er yfir Betlehem og blikar jólatjarna í öllum gluggunum og músíkin í útvarpinu hjá framhjá akandi fólki sendir tóninn í litadýrðinni en er þó áleitnari en í fyrra og kannski verður einhverjum bumbult af því háværa glamri sem er margt úr júrovíson ítala og íslendingar taka upp á arma sína í hugmyndaleysi klakans en þetta verður að fá að ganga yfir eins og farsótt sem engu eirir og splundrar með lævíslegum hætti eins og gengur og gerist en við skulum ekki láta það angra stemminguna að ráði heldur kalla fram minningar sem leynast í djúpinu og varpa týru á sálina og eftirsjána sem er í kallfæri daganna þegar norðurljósin sveifluðust yfir höfðinu á göngunni um landið sem var fannhvítt og hreint en sólin fjarri þau kvöld enda sigin niður á hvelfingunni til að bjarma annars staðar á jörðinni og tunglinu – en skildi eftir kveðju um betri tíma og vaxandi ferðamannastraum til að létta reksturinn í sumar

Bestu þakkir fyrir góða og trausta vináttu og allan velgjörning á liðnum árum – og gleðileg jól

Pin It on Pinterest

Share This