Sýningar 2020

Sýningar 2020

Sýningar 2020

25 ára afmæli Safnasafnsins

Safnið er opið alla daga frá klukkan 10 – 17 fram til 13.september.

Safnasafnið var stofnað árið 1995 af þeim Níelsi Hafstein og Magnhildi Sigurðardóttur og fagnar því 25 ára afmæli á þessu ári. Af því tilefni er á sýningum safnsins þetta árið sýnt fjölbreytt úrval úr safneigninni og skapað létt og leikandi flæði milli sala og hæða. Gróður leikur stórt hlutverk í sýningunum en einnig letur, umhverfismál, huldufólk, barnslegt hugarfar, kjarnar, innsæi og fagurfræði. Kynnt eru verk eftir um 150 þekkta sem óþekkta höfunda til að flagga fjölbreytileika safneignarinnar. 

 • Sýnd eru verk listafólks sem vinnur að list sinni á Sólheimum í Grímsnesi og eru í eigu safnsins en Sólheimar fagna 90 ára afmæli í ár.
 • 200 ár eru síðan að Sölvi Helgason fæddist í Skagafirði og til að minnast þessara 200 ára tímamóta setur Safnasafnið upp sýningu á verkum hans.
 • Magnhildur Sigurðardóttir sýnir kyrtil sem hún saumaði samkvæmt hugmyndum Sigurðar Guðmundssonar málara (1833-1874) sem hann setti fram árið 1870 til að stuðla að endurnýjun íslenska kvenbúningsins.
 • Börnin í Álfaborg sýna verk sín í Blómastofu.
 • Tvær stórar samsýningar opna, önnur heitir Í mannsmynd og samanstendur af 50 verkum sem öll tengjast manneskjunni í einhverri birtingarmynd.
 • Hin ber heitið Gróður jarðar og hugarflugs og hefur sýningarstjórinn Níels Hafstein skapað sannkallaðan töfragarð úr verkum fjölda höfunda.
 • Í bókastofu má sjá myndir úr handritum og brúðusafnið með sínum 400 brúðum er á sínum stað.
 • Hreinn Friðfinnsson vinnur með einkennilegan atburð sem gerðist í safninu.
 • Magnús Logi Kristinsson sýnir ljósmyndir af gjörningum.
 • Guðrún Bergsdóttir sýnir einstök útsaumsverk sín þar á meðal er fyrsta myndin sem hún saumaði út án forskriftar og sú nýjasta.
 • Gunnhildur Hauksdóttir samdi hljóðverk að beiðni safnsins eftir uppdráttum að myndvefnaði eftir Jóhönnu Jóhannsdóttur
 • Helena Ósk Jónsdóttir sýnir teikningar af hestum og hestastyttur í anddyri
 • Níels Hafstein vekur athygli á vatnsskorti og óþægilegum staðreyndum um vistkerfi sjávar í verkum sínum.

  Safnasafninu er heiður af því að vera í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík  sem fagnar 50 ára afmæli. Þessi síungu afmælisbörn leiða hesta sína saman á sýningunni Gróður jarðar og hugarflugs. Á sýningunni hefur sýningarstjórinn, Níels Hafstein, skapað sannkallaðan töfragarð sem veitir gestum safnsins margslungna upplifun en 101 listamaður á verk á sýningunni.

  Safnasafnið hefur um árabil verið í góðu samstarfi við Listahátíðina List án landamæra og er heiður að því. Þrjár sýninga sumarsins eru jafnframt á dagskrá hátíðarinnar.

 


Sólheimar 90 ára

Hið óviðjafnanlega sjálfbæra samfélag að Sólheimum í Grímsnesi fagnar 90 ára afmæli í ár. Listaverk eftir listafólkið sem búsett er að Sólheimum hafa löngum heillað þá sem hrífast af hispursleysi og einlægni sem einkennir verkin, þeirra á meðal stofnendur Safnasafnsins sem áttu þó nokkurn fjölda listaverka frá Sólheimum við stofnun safnsins. Var þannig frá upphafi lagður grunnur að blómstrandi samskiptum með reglulegum sýningum í Safnasafninu í samstarfi við Sólheima. Að afloknum sýningunum hafa mörg verkanna verið gefin til safnsins og þegar litið er yfir farinn veg er gaman að sjá fjölbreytnina í verkum listafólksins og skynja gleðina og kraftinn sem býr að baki. Sýningin er framlag Safnasafnsins til hátíðarinnar List án landamæra og stendur í tvö ár.


Verslunin

Í ár er sýndur kyrtill sem Magnhildur Sigurðardóttir saumaði samkvæmt hugmyndum Sigurðar Guðmundssonar málara (1833-1874) sem hann setti fram árið 1870 til að stuðla að endurnýjun íslenska kvenbúningsins.

Þá eru sýnd um 230 ilmvatnsglös sem Sara Hólm á Akureyri gaf safninu 2018. Glösin eru frá helstu tískuhúsum veraldar og hönnuð af frægum listamönnum, þar á meðal Salvador Dali og Pablo Picasso.


Suðurstofa

Í innra rými verslunarinnar, svokallaðri Suðurstofu, er sýningin Í mannsmynd. Á sýningunni má sjá meira en 50 verk úr safneign Safnasafnsins eftir rúmlega 30 ólíka listamenn. Sum verkin eru gamlir kunningjar og hafa verið sýnd áður í öðru samhengi — en önnur hafa aldrei fengið tækifæri til að sýna sig. Í öllum verkunum má sjá útlínur manneskjunnar og bregður fyrir í sumum þeirra kynjasýnum á mörkum mennskunnar. Safnasafnið hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á fjölbreytta tjáningu á sjálfi listamanna, hvort sem hún birtist í þeirra eigin spegilmynd eða á sér aðrar birtingarmyndir.


Bókastofa

Í bókastofunni eru í ár sýndar myndir, skrift- og leturdæmi úr handritum sem varðveitt eru í handritadeild Landsbókasafns Íslands. Eru þessi verk hluti af yfirgripsmiklu rannsóknarverkefni sem unnið var árið 2003 af Ásrúnu Kristjánsdóttur og fjallaði um myndlýsingar sem finna má í fornum íslenskum handritum. Fékk Safnasafnið 78 verk úr rannsókninni að gjöf árið 2008.


Brúðusafn

Í brúðusafni Safnasafnsins má sjá brúður íklæddar þjóðbúningum frá öllum heimshornum. Brúðurnar á sýningunni eru 400 talsins en í safneign eru alls um 800 gripir. Innlendir sem erlendir gestir hafa ánægju af að finna brúður frá heimalandi sínu og vilja um leið fræðast um aðrar þjóðir.


Samstarf við skóla

Í ár sýna börnin í leikskólanum Álfaborg verk sín í blómastofunni inn af brúðusafninu. Árlega efnir Safnasafnið til samstarfs við grunn- og leikskóla við austanverðan Eyjafjörð. Þetta samstarf er hugsað til þess að efla listrænan áhuga og hugmyndaflug barnanna frá unga aldri, en einnig er safninu heiður og ánægja að þátttöku þeirra, lífsgleði og sköpunarkrafti.


Blómstur – Sölvi Helgason í 200 ár

Listamaðurinn Sölvi Helgason (1820-1895) fæddist að Fjalli í Sléttuhlíð í Skagafirði árið 1820 og til að minnast þessara 200 ára tímamóta setur Safnasafnið upp sýningu á verkum hans. Sölvi Helgason, eða Sólon Íslandus eins og hann kallaði sig líka, var af fátæku fólki kominn og lifði þá tíma þegar íslensku alþýðufólki voru settar skorður með vistarbandi og takmörkuðu ferðafrelsi. Sölvi gerði uppreisn gegn þessum reglum, ferðaðist um landið og leit á sig sem sjálfmenntaðan listamann og fræðimann. Fyrir það uppskar hann hýðingar og fangelsisdóma. Á sama tíma og Sölvi var á faraldsfæti og átti í útistöðum við yfirvöld skapaði hann einstæð listaverk sem einkennast af blómskrúði og blómafléttum. Sölvi var einnig sískrifandi og smágerð skrift hans þekur iðulega bakhlið myndverka og eins ritaði hann athugasemdir inn á sjálfar myndirnar. Listrænt vægi og gæði myndverka Sölva Helgasonar er óumdeilanlegt, þó ekki hlyti hann viðurkenningu í lifandi lífi, og í dag getum við ekki annað en dáðst að sköpunarverki þessa fátæka förumanns.

Á sýningunni eru sýnd ellefu áður óþekkt verk eftir Sölva Helgason sem varðveist hafa í Danmörku. Einlægar þakkir fyrir að lána verkin á sýninguna fá eigendur þeirra; Birgitte Herbert Nielsen, Hanne Hendil, Jesper Herbert-Nielsen, Kirsten Herbert Rønnebek og Lisbeth Herbert Møller.


Gróður jarðar og hugarflugs

Á þessari sýningu hefur sýningarstjórinn, Níels Hafstein, skapað sannkallaðan töfragarð í þeim tilgangi að kynna listaverk og gripi úr safneign eftir sem flesta höfunda og sýna ólíkar hugmyndir þeirra, aðferðir og efnisval. Fjallað er um tún, úthaga, þúfur, tré og runna, blóm, ávexti og grænmeti. En þó gróðurinn sé í aðalhlutverki eru verkin á sýningunni ekki einskorðuð við hann, því menn og dýr koma við sögu í nálægð augans eða fjarvídd landslagsins. Þá býr ýmislegt óvænt að baki eða er innan seilingar. Settar eru fram andstæður og samstæður, stærðir, form, litir, slétt og gróf áferð til að fá heild á hvern vegg, sem tengjast svo með áherslum og sjónlínum um rýmið, þjappa verkunum saman og veita gestum safnsins margslungna upplifun. Sýningin er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. 


Hreinn Friðfinnsson

Í fínlegum og ljóðrænum verkum sínum vinnur Hreinn Friðfinnsson með ljósmyndir, texta, sögur og sagnir, drauma og yfirnáttúruleg fyrirbæri, og oft eru verkin með léttum húmorískum undirtón. Á sýningunni í Safnasafninu vinnur Hreinn meðal annars með einkennilegan atburð sem átti sér stað í Safnasafninu fyrir alllöngu, sem vísar til og styrkir þá trú og skoðun margra að í nágrenni þess séu huldufólksbyggðir.


Magnús Logi Kristinsson

Í listsköpun sinni hefur Magnús Logi einkum lagt áherslu á gjörninga og í meðförum hans verður tungumál og líkami að þrívíðum og byggingarfræðilegum listflutningi. Á sýningunni í Safnasafninu eru ljósmyndir af ýmsum gjörningum Magnúsar Loga þar sem hann notar líkama sinn eins og skúlptúr, hreyfist varla og leyfir áhorfendum að koma og fara að vild á meðan á gjörningnum stendur.


Gunnhildur Hauksdóttir og Jóhanna Jóhannsdóttir

Gunnhildur Hauksdóttir býr jöfnum höndum til tvívíð verk, skúlptúra, innsetningar, hljóðverk, myndbönd og gjörninga og blandar þeim miðlum gjarnan saman. Safnasafnið bað Gunnhildi um að semja hljóðverk við uppdrætti fyrir myndvefnað eftir Jóhönnu Jóhannsdóttur sem eru í eigu Safnasafnsins. Í hljóðverkinu er stuðst við slátt vefstóls með söngröddum lögðum yfir vefmunstrin og í uppsetningu sýningarinnar er leitast við að kalla fram hreyfingu og flæði í takt við þann hljóðheim sem Gunnhildur hefur skapað. Saman mynda þessi ólíku form sjálfstæða margslungna heild sem brúar bilið á milli miðla og ólíkra kynslóða.

Jóhanna Jóhannsdóttir (1918-1985) fæddist á Hellissandi á Snæfellsnesi og ólst þar upp við hannyrðir og saumaskap. Hún stundaði nám við Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði og hélt síðan til framhaldsnáms við Statens Håndverks- og Kunstindustrihøgskole í Noregi. Eftir hana liggur listvefnaður, rýjateppi og útsaumur en einnig vandaðar vinnubækur með munstrum, vefsýnishornum og frumdrögum að stærri verkum.


Helena Ósk Jónsdóttir

Helena Ósk Jónsdóttir (f. 1999) þróaði fljótt með sér afar sérstakan stíl í teikningu, einkum í myndum af hestum sem hún kynntist í æsku og hefur mikið yndi af. Helena Ósk hefur góða tilfinningu fyrir stemningu og biður oft nærstadda að hlusta á áhöldin þegar hún teiknar, að nema skrjáf í blaði og hvernig blýantur og litir ferðast um það. Á sýningunni er raðað saman teikningum, skúlptúrum og fjöldaframleiddum plasthestum sem Helena Ósk hefur farið fimum höndum um og sveigt að listrænum kröfum sínum. Er ástríða hennar og næmi fyrir dýrum augljós og kemur sterklega fram í myndum hennar.


Guðrún Bergsdóttir

Guðrún Bergsdóttir byrjaði að vinna að útsaumslist sinni eftir þrítugt en þá fór hún að nota nál, garn og striga á persónulegan hátt. Áður hafði Guðrún unnið tússmyndir sem svipar um margt til útsaumsmynda hennar. Frá árinu 2000 til ársins 2018 saumaði Guðrún samtals 66 myndir án forskriftar og er úrval þeirra sýnt á sýningunni hér í Safnasafninu, þar á meðal fyrsta myndin sem hún saumaði út og sú síðasta. Þróaði Guðrún sérstakan stíl sem vakti aðdáun og höfðaði til fólks á ólíka vegu, en verk hennar tengjast bæði handverkshefðinni og geómetríski abstrakt list. Líkt og Safnasafnið ávarpa verk Guðrúnar manngerð landamæri listheimsins þar sem múrar hafa verið reistir og verk eru vegin og metin eftir ósögðum en vel þekktum reglum um gildi ólíkra verka og skapara þeirra.


Níels Hafstein

Níels Hafstein hefur um langt árabil verið brautryðjandi í íslensku myndlistarlífi, bæði sem sjálfstætt starfandi myndlistarmaður og sem aflvaki í margvíslegu menningarlífi. Á sýningu sinni stillir hann upp teikningum, ljósmyndum, málverkum, filmum og skúlptúrum á fagurfræðilegan hátt og setur í frumlegt samhengi til að vekja athygli á vatnsskorti og óþægilegum staðreyndum um vistkerfi sjávar

Sýningar 2019

Sýningar 2019

Sumarið 2018 ákvað Safnasafnið að setja upp tveggja ára sýningu á 360 fuglum
úr safneign sinni, sem geymir um 600 fugla alls. Fuglar eru táknmyndir frelsis og
boðberar sumars, þeir svífa yfir land og sjó, fjöll og firnindi og yfir úthöfin breið, og
tengja með ferðalögum sínum stað við stað og land við land.

Samstarf við skóla
Haldið er upp á 20 ára samstarf safnsins við Valsárskóla með verkefninu
Heimabyggð, en í því taka líka þátt elstu börnin í Leikskólanum Álfaborg á
Svalbarðseyri.

Verslunin
Í ár er sýndur upphlutur sem Magnhildur Sigurðardóttir saumaði samkvæmt
hugmynd sem Sigurður Guðmundsson málari [1833-1874] kynnti 1870. Þá eru
sýnd um 230 ilmvatnsglös sem Sara Hólm á Akureyri gaf safninu 2018. Glösin
eru frá helstu tískuhúsum veraldar og hönnuð af frægum listamönnum, þar á
meðal Pablo Picasso.

Í innra rými verslunarinnar, svokallaðri Suðurstofu, sýnir Atli Már Indriðason í
Reykjavík málverk og teikningar. Atli Már var kjörinn „Listamaður ársins 2019“ á
hátíðinni List án landamæra. Í sama sal er einnig sýning á vefnaði sem Guðrún Hadda Bjarnadóttir frá
Fífilbrekku í Eyjafjarðarsveit vann eftir stækkuðum teikningum sona sinna og
sonarsona.

Í bókastofunni eru ógrynni fræðirita og bóka um flestar helstu listgreinar, svo sem
myndlist, hönnun, arkitektúr, textíl og handverk. Fræðafólk og áhugamenn geta
þar einnig fengið aðgang að upplýsingum um sýningarhald, safneign og
rannsóknir Safnasafnsins á alþýðulist og sérstæðum listamönnum.


Í bókastofunni eru í ár sýnd leirverk eftir ókunna höfunda, gerð á vinnustofu
Kleppsspítala árin 1980-1983. Stofnendur Safnasafnsins unnu bæði í Víðihlíð á
þessum árum og fengu þau verkin að gjöf frá listafólkinu eða keyptu þau á
árlegum basar.

Brúðusafn Doll Collection
Í brúðusafni Safnasafnsins má sjá brúður íklæddar þjóðbúningum frá öllum heims
hornum. Brúðurnar á sýningunni eru 400 talsins en í safneign eru alls um 800
gripir.

Auður Lóa Guðnadóttir
Leikfimi / Sport series 2018-2019
Auður Lóa Guðnadóttir er myndlistarmaður sem leikur sér á landamærum hins hlutlæga og huglæga, skúlptúrs og teikningar, listar og veruleika. Á sýningunni í Safnasafninu eru verk úr skúlptúrseríunni Leikfimi sem Auður Lóa hefur unnið að síðastliðið ár, en þar tvinnast saman mörg hugðarefni hennar: fagurfræði, félagsleg hegðun, internetið og níundi áratugurinn. 

Eygló Harðardóttir
Grímur / Masks  2018-19
Eygló Harðardóttir vinnur gjarnan tví- og þrívíða abstrakt-skúlptúra, innsetningar og bókverk. Hráefni eins og nýr eða endurnýttur pappír, litríkt fundið efni, plast, viður, grafít og gler, leggja grunn að hugmyndum Eyglóar og eru drifkraftur til að kanna miðilinn hverju sinni. Sköpunarferli Eyglóar einkennist af rannsókn og könnun á efninu, þar sem möguleikar og takmarkanir þess eru kortlögð og auðkenni þess rannsökuð. Eftir stendur sjónræn niðurstaða sem er afsprengi ferils þar sem efnið hefur ráðið för, það er teygt og því breytt og fengið annað hlutverk.

Steingrímur Eyfjörð
Sýnir verkið Kynjamyndir en það var fyrst sýnt á Feneyjartvíæringnum árið 2007, þar sem Steingrímur var fulltrúi Íslands. Á sýningunni vann hann á skapandi hátt með ólík minni, tengd þjóðfræði og sögu Íslands. 

Þórður Guðmundur Valdimarsson – Kiko Korriro (1922–2002)
Árið 2015 gaf fjölskylda Þórðar Safnasafninu meginhluta ævistarfs hans, um 120.000 verk. Var strax árið 2016 sett upp sýning sem sýndi umfang þessarar áhugaverðu nýju safneignar. Nú í sumar eru sýndar klippimyndir sem eru fengnar að láni frá ættingjum, auk verka úr safneign, m.a. teikningar, skúlptúrar og ljósmyndir sem voru teknar af Þórði þegar hann dvaldi ungur maður í Los Angeles og hitti nokkrar af þekktustu kvikmyndastjörnum þess tíma. Undanfarin fjögur ár hefur Níels Hafstein kannað ítarlega hluta af myndverkum Þórðar og birtist rannsókn hans í bók sem gefin er út í tengslum við sýninguna.

Valdimar Bjarnfreðsson – Vapen
Valdimar Bjarnfreðsson var óvenjulegur myndlistarmaður, því við myndsköpun sína beitti hann sömu aðferðum og þegar spáð er í bolla. Hann hélt yfir tug málverkasýninga og bar ein þeirra hinn skemmtilega titil „Kaffibollinn er mitt Internet“. Tengsl Valdimars við dulræn öfl fór hann ekki leynt með og í kaffibollanum birtust honum myndir þar sem fólgið var svar að handan við spurningum hans um hin ýmsu málefni. Verk Valdimars eru einföld og bernsk í framsetningu, litir skærir, formin einfölduð og fletir einlitir. 

Rúna Þorkelsdóttir
Paperflowers
Bókverkið Paperflowers vann Rúna á vinnustofu sinni í Amsterdam á svokallaða Rota-print-prentvél og var verkið gefið út í 100 árituðum og innbundnum bókum árið 1998. Jafnframt voru 10 eintök ef hverri mynd höfð laus í möppum og seldist útgáfan fljótt upp. Árið 2007 keypti Tao Kurihara, hönnuður hjá tískuhúsinu Comme des Garcons, Paperflowers í bókverkabúð í Tokyo. Hafði hún samband við Rúnu og hófst þá skapandi samvinna þeirra við gerð fataefnis útfrá verkunum. Þær völdu myndir og skeyttu saman beint, án þess að nota myndvinnsluforrit, svo greinilega sést að myndirnar eru í upprunalegri A4-stærð með hvítum röndum á milli. Tao Kurihara hannaði síðan sumarlínu úr fataefnunum sem var kynnt á tískusýningu í verslun Comme des Garcons í París 2008. Fatalínan vakti athygli, var fjallað um hana í helstu tískutímaritum og meðal kaupenda úr línunni var Michelle Obama forsetafrú Bandaríkjanna.

 

 

JAHÉRNA! Nordic Outsider Craft
Sýningin JAHÉRNA! er norræn sýningarröð sem ferðast milli Finnlands, Danmerkur, Svíþjóðar, Íslands og Noregs frá 2018 til 2020. Sýningin opnar í Safnasafninu þann 13. júlí 2019.

Á sýningunni má sjá verk þar sem unnið er með hefðbundnar handverksaðferðir, til dæmis prjón, hekl og útsaum af ýmsu tagi, en einnig verk unnin úr plastpokum, leir og tré. Verkin á sýningunni eru valin af finnsku sýningarstjórunum Elina Vuorimies og Minna Haveri. Hver sýningarstaður krefst nýrrar nálgunar við uppsetningu verkanna, en markmið sýningarstjóranna er að sýna þá fjölbreytni og leikgleði sem fólgin er í verkum einfara og hvernig þeir nota tækni og efni á nýstárlegan hátt.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eiga sér ólíkan bakgrunn, sumir eru fatlaðir eða með sérstakar þarfir, en aðrir ekki. Það sem sameinar þá er að vinna með hefðbundið handverk út frá eigin hugkvæmni og hugmyndaflugi.

Safnasafnið er, líkt og aðrir þátttakendur í sýningaröðinni, meðlimur í samtökunum European Outsider Art Association, EOA, sem myndar tengslanet milli stofnana sem safna og sýna list einfara.
Aðrir samstarfsaðilar eru / Other institutions cooperating are: The Craft Museum, Jyväskylä, Finland / Bifrost FOF-Artschool, Randers, Denmark / Art Gallery Filosoffen, Odense, Denmark / Inuti, Stockholm, Sweden / Aguélimuséet, Sala, Sweden / Trastad Museum, Harstad, Norway / Galleri NordNorge, Harstad, Norway / K.H.Renlund Museum, Kokkola, Finland.

 

Frá jaðri til miðju – Þróun íslenskrar alþýðulistar og staða hennar í dag

Frá jaðri til miðju – Þróun íslenskrar alþýðulistar og staða hennar í dag

FRÁ JAÐRI TIL MIÐJU
Þróun íslenskrar alþýðulistar og staða hennar í dag

Safnasafnið býður til samtals um listir í Þjóðminjasafni Íslands laugardaginn 3. nóvember frá kl. 13.00 til 16.00.

 Erindi flytja:

Níels Hafstein, myndlistarmaður og safnstjóri Safnasafnsins
Íslensk alþýðulist, þróun, gæði og staða á heimsvísu

Harpa Björnsdóttir, myndlistarmaður
Safnasafnið, rannsóknarsetur og safn íslenskrar alþýðulistar

Loji Höskuldsson, myndlistamaður segir frá verkum sínum

Margrét M. Norðdahl, myndlistarmaður
Alþjóðleg hugtök, nám og aðgengi í listheiminum. Margrét segir einnig frá verkum bandarísku listakonunar Judith Scott og frá verkum Gíu (Gígju Thoroddsen)

Fundarstjóri er Unnar Örn J. Auðarson, myndlistarmaður

Veitingar í boði Safnasafnsins í hléi.

Þátttakendur í pallborði:

 • Bjarki Bragason, myndlistarmaður og lektor við Listaháskóla Íslands
 • Eiríkur Þorláksson, listfræðingur og sérfræðingur í Mennta- og menningarmálaráðuneyti
 • Harpa Þórsdóttir, listfræðingur og safnstjóri Listasafns Íslands
 • Inga Björk Bjarnadóttir, MA nemi í listfræði við Háskóla Íslands og fötlunaraktivisti
 • Ragna Sigurðardóttir, myndlistarmaður og rithöfundur

Verið öll hjartanlega velkomin!

Aðgengi er gott í Þjóðminjasafninu. Vinsamlegast látið okkur vita ef þörf er á táknmálstúlkun

Verkefnið er styrkt af Safnaráði og Fullveldissjóði Íslands.

Peter Michaels Micari – Biskupinn

Peter Michaels Micari – Biskupinn

Níels Hafstein skrifaði sýslumanninum í Stykkishólmi bréf þar sem leitað var eftir því að Safnasafnið fengi myndverk og gripi úr dánarbúi Peters Michaels Micari (1943-2017), Kvennahóli á Fellsströnd, en hann andaðist 2017, 74 ára gamall. Fregnir af því bárust ekki norður fyrr en Hulda Rós Rúriksdóttir skiptaráðandi var að ljúka störfum. Hafði hún samband við syni PMM í Bandaríkjunum og samþykktu þeir fúslega að safnið tæki það sem lægi á lausu. Í framhaldinu var send fyrirspurn til dvalarheimilis aldraðra í Búðardal til að kanna hvort eitthvað hefði orðið eftir af gripum þar þegar Peter andaðist en hann lagðist aldrei inn þar. Áhugi safnsins helgaðist af því að Peter bjó til alla gripi sjálfur og skreytti þá með aðfengnum smáhlutum. Safnið fékk mítur með málmskífum innan í og á bak við stóluna, kollhúfu, stóra skreytta húfu til notkunar við helgiathafnir, stóran kross, 3 hálsmen með skreytingum og bænaperlum, og stórt verk þakið frímerkjum, sem hér sést meginn hlutinn af. Arfleifð biskupsins verður rannsökuð á næstu árum og haldin sýning í fyllingu tímans.
Opnunartími 2018

Opnunartími 2018

Safnasafnið er opið alla daga fram til 9. september frá kl.10 – 17.

Eftir 9.september er mögulegt að hafa samband við safnið í síma 461-4066, og panta heimsókn á safnið fyrir hópa.

Pin It on Pinterest