Alþýðulist á Íslandi

Safnasafnið – Alþýðulist Íslands – leitar til þeirra sem hafa upplýsingar um list alþýðulistarfólks, það hefur um 200 nöfn á skrá en leitar að fleirum. Mikilvægt er að fólk hafi samband, enda ætti það að vera metnaðarmál hvers byggðarlags að skapandi íbúar þess njóti sannmælis og séu kynntir á sama hátt og aðrir. Þá er minnt á þá staðreynd að margir hæfileikamenn vinna verk sín utan vébanda stofnana og félagsstarfs og væri mikill fengur að frétta af þeim: í næsta húsi, næstu götu, næsta hverfi, næstu sveit.
.
Til þess að varpa ljósi á viðfangsefnið eru birt hér nokkur atriði sem hægt er að hafa í huga: Alþýðulistarverk er oftast nær verk sem búið er til af fólki með litla sem enga menntun í myndlist (álítur sig sjaldnast vera fagfólk). Verkið er lýsing á liðinni tíð og vinnubrögðum til lands og sjávar, persónulegum högum og fjölskyldulífi, ferðalögum og landslagi, fjallar um tilurð örnefna, goðsagnaminni, þjóðlegan fróðleik, sýnir og drauma
Alþýðulistarverk er einnig sprottið úr sálarfylgsnum höfundar síns; tjáning á hugarástandi, geðsveifla, viðbragð við áreiti og einelti; verk hins þroskahefta, einmana, sjúka og aldna, þess sem er afskiptur eða haldið föngnum; það getur verið hróp á hjálp, yfirlýsing, skilaboð, uppreisn eða hefnd, gagnrýni, leyndarmál, jafnvel sjálfsmeðferð: lausn úr kreppu.
.
Alþýðulistarverk er undantekningarlítið búið til án uppskriftar eða fyrirmyndar, nema í umbreyttu formi, en getur verið tilbrigði við stef eða atburð, t. d. við efni á ljósmynd sem hefur tilfinningalegt gildi.
Alþýðulistarverk ber oftast með sér barnslegan blæ, unnið falslaust, í einlægni, út frá hjartalagi.
Alþýðulistarverk er gjarnan gert af vanefnum, jarfnvel í miklum flýti, er ef til vill fátæklegt eða óvandað og ómerkilegt í augum margra skoðenda, en veitir samt markverða innsýn í persónuleik höfundar.
Alþýðulistarverk er oft búið til úr náttúrulegum efnum, því sem er hirt í fjöru og á fjalli, eða af götu, en einnig úr rusli og afgögnum; á stofnunum og í félagsstarfi er þó vandaðra efni og úr fleiru að velja. Þegar fullþroska heilbrigður maður finnur fyrir þörf til að skapa eitthvað sérstætt, virkja ímyndunarafl sitt og tjáningargleði, þá á hann aðeins um eitt að velja: að vitja upprunans, ljúka upp dyrum að vitundinni til að hefjast handa þar sem frá var horfið: að skapa fyrir sjálfan sig. Hann hugar fyrst og fremst að mynd og efni hennar, hvernig það tengist minningum og atburðum líðandi stundar, leggur áherslu á að ná fyrirmynd sinni, hvort heldur hún stendur andspænis honum eða lifir í minni, en það leiðir af sjálfu sér að líkingin verður aldrei fullkomin, það er eins og maðurinn horfi í gegnum matt gler eða grisju, og þar kviknar undrið: uppljúkast dyr að töfraveröld sem vekur fögnuð og hamingju í brjósti þess sem skoðar, því nú stendur hann allt í einu andspænis horfinni bernsku sinni.
Alþýðulistarverk eiga nú mun meiri möguleika á því en áður að lifa og dafna í umræðum og á sýningum. Þau eru hvati að verkum lærðra listamanna, falla vel að hugmyndum nútímans um óhefta sköpunargleði og tjáningarfrelsi. Þau eru frumlag þess besta og ferskasta í fólki sem hefur eitthvað að segja. Almenningur verður þessa var og leitar upprunans, viðurkennir þá listsköpun sem stendur lundinni næst: að skoða yndisleg verk, staka hluti jafnt sem stórar heildir, en síðast en ekki síst: að hrífast af fagurri hugsun, því að alþýðulistin er formálalaus lífstjáning fólks, hjartahrein, mótuð úr skírum kjarna sálarlífsins:
þeirri frumlegu sýn sem kviknar í undirdjúpunum þar sem ljósið týrir en glóir stundum í björtum loga svo andinn tekur kipp og margslungin starfsemi fer í gang til að forma ljómann og finna honum farveg síðan skyldan að kynna fullburða verkið fyrir umheimi tvístígandi með ugg í brjósti kjósa frekar að hlú að því í næði en vilja þó leyfa öðrum að dást að og lýsa yfir með hreykni:
þetta get ég!
standa svo vörð um nýfengna reynslu
gáfu og gleði
hrifnæmi
barnið í sjálfu sér
allt þar til yfir lýkur

Pin It on Pinterest

Share This