Sýningar 2019

Sýningar 2019

Sumarið 2018 ákvað Safnasafnið að setja upp tveggja ára sýningu á 360 fuglum
úr safneign sinni, sem geymir um 600 fugla alls. Fuglar eru táknmyndir frelsis og
boðberar sumars, þeir svífa yfir land og sjó, fjöll og firnindi og yfir úthöfin breið, og
tengja með ferðalögum sínum stað við stað og land við land.

Samstarf við skóla
Haldið er upp á 20 ára samstarf safnsins við Valsárskóla með verkefninu
Heimabyggð, en í því taka líka þátt elstu börnin í Leikskólanum Álfaborg á
Svalbarðseyri.

Verslunin
Í ár er sýndur upphlutur sem Magnhildur Sigurðardóttir saumaði samkvæmt
hugmynd sem Sigurður Guðmundsson málari [1833-1874] kynnti 1870. Þá eru
sýnd um 230 ilmvatnsglös sem Sara Hólm á Akureyri gaf safninu 2018. Glösin
eru frá helstu tískuhúsum veraldar og hönnuð af frægum listamönnum, þar á
meðal Pablo Picasso.

Í innra rými verslunarinnar, svokallaðri Suðurstofu, sýnir Atli Már Indriðason í
Reykjavík málverk og teikningar. Atli Már var kjörinn „Listamaður ársins 2019“ á
hátíðinni List án landamæra. Í sama sal er einnig sýning á vefnaði sem Guðrún Hadda Bjarnadóttir frá
Fífilbrekku í Eyjafjarðarsveit vann eftir stækkuðum teikningum sona sinna og
sonarsona.

Í bókastofunni eru ógrynni fræðirita og bóka um flestar helstu listgreinar, svo sem
myndlist, hönnun, arkitektúr, textíl og handverk. Fræðafólk og áhugamenn geta
þar einnig fengið aðgang að upplýsingum um sýningarhald, safneign og
rannsóknir Safnasafnsins á alþýðulist og sérstæðum listamönnum.


Í bókastofunni eru í ár sýnd leirverk eftir ókunna höfunda, gerð á vinnustofu
Kleppsspítala árin 1980-1983. Stofnendur Safnasafnsins unnu bæði í Víðihlíð á
þessum árum og fengu þau verkin að gjöf frá listafólkinu eða keyptu þau á
árlegum basar.

Brúðusafn Doll Collection
Í brúðusafni Safnasafnsins má sjá brúður íklæddar þjóðbúningum frá öllum heims
hornum. Brúðurnar á sýningunni eru 400 talsins en í safneign eru alls um 800
gripir.

Auður Lóa Guðnadóttir
Leikfimi / Sport series 2018-2019
Auður Lóa Guðnadóttir er myndlistarmaður sem leikur sér á landamærum hins hlutlæga og huglæga, skúlptúrs og teikningar, listar og veruleika. Á sýningunni í Safnasafninu eru verk úr skúlptúrseríunni Leikfimi sem Auður Lóa hefur unnið að síðastliðið ár, en þar tvinnast saman mörg hugðarefni hennar: fagurfræði, félagsleg hegðun, internetið og níundi áratugurinn. 

Eygló Harðardóttir
Grímur / Masks  2018-19
Eygló Harðardóttir vinnur gjarnan tví- og þrívíða abstrakt-skúlptúra, innsetningar og bókverk. Hráefni eins og nýr eða endurnýttur pappír, litríkt fundið efni, plast, viður, grafít og gler, leggja grunn að hugmyndum Eyglóar og eru drifkraftur til að kanna miðilinn hverju sinni. Sköpunarferli Eyglóar einkennist af rannsókn og könnun á efninu, þar sem möguleikar og takmarkanir þess eru kortlögð og auðkenni þess rannsökuð. Eftir stendur sjónræn niðurstaða sem er afsprengi ferils þar sem efnið hefur ráðið för, það er teygt og því breytt og fengið annað hlutverk.

Steingrímur Eyfjörð
Sýnir verkið Kynjamyndir en það var fyrst sýnt á Feneyjartvíæringnum árið 2007, þar sem Steingrímur var fulltrúi Íslands. Á sýningunni vann hann á skapandi hátt með ólík minni, tengd þjóðfræði og sögu Íslands. 

Þórður Guðmundur Valdimarsson – Kiko Korriro (1922–2002)
Árið 2015 gaf fjölskylda Þórðar Safnasafninu meginhluta ævistarfs hans, um 120.000 verk. Var strax árið 2016 sett upp sýning sem sýndi umfang þessarar áhugaverðu nýju safneignar. Nú í sumar eru sýndar klippimyndir sem eru fengnar að láni frá ættingjum, auk verka úr safneign, m.a. teikningar, skúlptúrar og ljósmyndir sem voru teknar af Þórði þegar hann dvaldi ungur maður í Los Angeles og hitti nokkrar af þekktustu kvikmyndastjörnum þess tíma. Undanfarin fjögur ár hefur Níels Hafstein kannað ítarlega hluta af myndverkum Þórðar og birtist rannsókn hans í bók sem gefin er út í tengslum við sýninguna.

Valdimar Bjarnfreðsson – Vapen
Valdimar Bjarnfreðsson var óvenjulegur myndlistarmaður, því við myndsköpun sína beitti hann sömu aðferðum og þegar spáð er í bolla. Hann hélt yfir tug málverkasýninga og bar ein þeirra hinn skemmtilega titil „Kaffibollinn er mitt Internet“. Tengsl Valdimars við dulræn öfl fór hann ekki leynt með og í kaffibollanum birtust honum myndir þar sem fólgið var svar að handan við spurningum hans um hin ýmsu málefni. Verk Valdimars eru einföld og bernsk í framsetningu, litir skærir, formin einfölduð og fletir einlitir. 

Rúna Þorkelsdóttir
Paperflowers
Bókverkið Paperflowers vann Rúna á vinnustofu sinni í Amsterdam á svokallaða Rota-print-prentvél og var verkið gefið út í 100 árituðum og innbundnum bókum árið 1998. Jafnframt voru 10 eintök ef hverri mynd höfð laus í möppum og seldist útgáfan fljótt upp. Árið 2007 keypti Tao Kurihara, hönnuður hjá tískuhúsinu Comme des Garcons, Paperflowers í bókverkabúð í Tokyo. Hafði hún samband við Rúnu og hófst þá skapandi samvinna þeirra við gerð fataefnis útfrá verkunum. Þær völdu myndir og skeyttu saman beint, án þess að nota myndvinnsluforrit, svo greinilega sést að myndirnar eru í upprunalegri A4-stærð með hvítum röndum á milli. Tao Kurihara hannaði síðan sumarlínu úr fataefnunum sem var kynnt á tískusýningu í verslun Comme des Garcons í París 2008. Fatalínan vakti athygli, var fjallað um hana í helstu tískutímaritum og meðal kaupenda úr línunni var Michelle Obama forsetafrú Bandaríkjanna.

 

 

JAHÉRNA! Nordic Outsider Craft
Sýningin JAHÉRNA! er norræn sýningarröð sem ferðast milli Finnlands, Danmerkur, Svíþjóðar, Íslands og Noregs frá 2018 til 2020. Sýningin opnar í Safnasafninu þann 13. júlí 2019.

Á sýningunni má sjá verk þar sem unnið er með hefðbundnar handverksaðferðir, til dæmis prjón, hekl og útsaum af ýmsu tagi, en einnig verk unnin úr plastpokum, leir og tré. Verkin á sýningunni eru valin af finnsku sýningarstjórunum Elina Vuorimies og Minna Haveri. Hver sýningarstaður krefst nýrrar nálgunar við uppsetningu verkanna, en markmið sýningarstjóranna er að sýna þá fjölbreytni og leikgleði sem fólgin er í verkum einfara og hvernig þeir nota tækni og efni á nýstárlegan hátt.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eiga sér ólíkan bakgrunn, sumir eru fatlaðir eða með sérstakar þarfir, en aðrir ekki. Það sem sameinar þá er að vinna með hefðbundið handverk út frá eigin hugkvæmni og hugmyndaflugi.

Safnasafnið er, líkt og aðrir þátttakendur í sýningaröðinni, meðlimur í samtökunum European Outsider Art Association, EOA, sem myndar tengslanet milli stofnana sem safna og sýna list einfara.
Aðrir samstarfsaðilar eru / Other institutions cooperating are: The Craft Museum, Jyväskylä, Finland / Bifrost FOF-Artschool, Randers, Denmark / Art Gallery Filosoffen, Odense, Denmark / Inuti, Stockholm, Sweden / Aguélimuséet, Sala, Sweden / Trastad Museum, Harstad, Norway / Galleri NordNorge, Harstad, Norway / K.H.Renlund Museum, Kokkola, Finland.

 

Frá jaðri til miðju – Þróun íslenskrar alþýðulistar og staða hennar í dag

Frá jaðri til miðju – Þróun íslenskrar alþýðulistar og staða hennar í dag

FRÁ JAÐRI TIL MIÐJU
Þróun íslenskrar alþýðulistar og staða hennar í dag

Safnasafnið býður til samtals um listir í Þjóðminjasafni Íslands laugardaginn 3. nóvember frá kl. 13.00 til 16.00.

 Erindi flytja:

Níels Hafstein, myndlistarmaður og safnstjóri Safnasafnsins
Íslensk alþýðulist, þróun, gæði og staða á heimsvísu

Harpa Björnsdóttir, myndlistarmaður
Safnasafnið, rannsóknarsetur og safn íslenskrar alþýðulistar

Loji Höskuldsson, myndlistamaður segir frá verkum sínum

Margrét M. Norðdahl, myndlistarmaður
Alþjóðleg hugtök, nám og aðgengi í listheiminum. Margrét segir einnig frá verkum bandarísku listakonunar Judith Scott og frá verkum Gíu (Gígju Thoroddsen)

Fundarstjóri er Unnar Örn J. Auðarson, myndlistarmaður

Veitingar í boði Safnasafnsins í hléi.

Þátttakendur í pallborði:

  • Bjarki Bragason, myndlistarmaður og lektor við Listaháskóla Íslands
  • Eiríkur Þorláksson, listfræðingur og sérfræðingur í Mennta- og menningarmálaráðuneyti
  • Harpa Þórsdóttir, listfræðingur og safnstjóri Listasafns Íslands
  • Inga Björk Bjarnadóttir, MA nemi í listfræði við Háskóla Íslands og fötlunaraktivisti
  • Ragna Sigurðardóttir, myndlistarmaður og rithöfundur

Verið öll hjartanlega velkomin!

Aðgengi er gott í Þjóðminjasafninu. Vinsamlegast látið okkur vita ef þörf er á táknmálstúlkun

Verkefnið er styrkt af Safnaráði og Fullveldissjóði Íslands.

Peter Michaels Micari – Biskupinn

Peter Michaels Micari – Biskupinn

Níels Hafstein skrifaði sýslumanninum í Stykkishólmi bréf þar sem leitað var eftir því að Safnasafnið fengi myndverk og gripi úr dánarbúi Peters Michaels Micari (1943-2017), Kvennahóli á Fellsströnd, en hann andaðist 2017, 74 ára gamall. Fregnir af því bárust ekki norður fyrr en Hulda Rós Rúriksdóttir skiptaráðandi var að ljúka störfum. Hafði hún samband við syni PMM í Bandaríkjunum og samþykktu þeir fúslega að safnið tæki það sem lægi á lausu. Í framhaldinu var send fyrirspurn til dvalarheimilis aldraðra í Búðardal til að kanna hvort eitthvað hefði orðið eftir af gripum þar þegar Peter andaðist en hann lagðist aldrei inn þar. Áhugi safnsins helgaðist af því að Peter bjó til alla gripi sjálfur og skreytti þá með aðfengnum smáhlutum. Safnið fékk mítur með málmskífum innan í og á bak við stóluna, kollhúfu, stóra skreytta húfu til notkunar við helgiathafnir, stóran kross, 3 hálsmen með skreytingum og bænaperlum, og stórt verk þakið frímerkjum, sem hér sést meginn hlutinn af. Arfleifð biskupsins verður rannsökuð á næstu árum og haldin sýning í fyllingu tímans.
Opnunartími 2018

Opnunartími 2018

Safnasafnið er opið alla daga fram til 9. september frá kl.10 – 17.

Eftir 9.september er mögulegt að hafa samband við safnið í síma 461-4066, og panta heimsókn á safnið fyrir hópa.

Við erum komin í Sarp

Við erum komin í Sarp

Þann 1. júní verða fyrstu skráningar safnsins birtar á SARP. Verða þar aðgengilegar upplýsingar um ríflega 350 verk úr safneign eftir 26 listamenn. Þau eru Aðalheiður Eysteinsdóttir, Bjarni Þór Þorvaldsson, Bólu-Hjálmar Jónsson, Eggert Magnússon, Guðjón Ketilsson, Guðbjörg Ringsted, Guðjón R. Sigurðsson, Gunnþór Guðmundsson, Helgi Valdimarsson, Helgi Þórsson, Hulda Vilhjálmsdóttir, Jón Ólafsson, Kristján F. Guðmundsson, Magnús Kjartansson, Magnús Pálsson, Sigrún Guðmundsdóttir, Sigurður Einarsson, Stefán Jónsson Stórval, Steinþór Steingrímsson, Sverrir Ólafsson, Valdimar Bjarnfreðsson, Hildur Kristín Jakobsdóttir, Svava Skúladóttir, Sölvi Helgason, Þór Vigfússon og Þórður Halldórsson. (Verkið sem fylgir fréttinni er sjálfsmynd eftir Valdmar Bjarnfreðsson)

Pin It on Pinterest